12. – 15. nóvember verða þemadagar og afmælishátíð Árskóla, en skólinn er 15 ára sem sameinaður skóli.
Þriðjudagur og miðvikudagur eru þemadagar í skólanum og verður unnið að verkefnum tengdum afmæli skólans og sögu skólahalds á Sauðárkróki. Skóladagur nemenda á þemadögum og fimmtudegi er kl. 8:10 – 13:10 á mið- og unglingastigi, en kl. 8:30 – 13:30 á yngsta stigi.
Á fimmtudegi er afmælishátíð skólans. Nemendur mæta á venjulegum tíma. Vinabekkir hittast og undirbúa skrúðgöngu. Síðan er dagskrá við gamla Barnaskólann kl. 9:30 – stutt ræðuhöld og söngur. Allir velkomnir. Að því loknu er skrúðganga frá Barnaskólahúsi að Árskóla. Að skrúðgöngu lokinni er boðið upp á „muffins" og djús á lóð skólans. Ekki er boðið upp á hefðbundinn morgunverð þennan dag.
Dansmaraþon 10. bekkjar hefst kl. 11:00 í Íþróttahúsinu og lýkur kl. 13:00 á föstudegi. Við hvetjum ykkur til að kíkja við á kaffihúsi 10. bekkjar og jafnvel fá ykkur snúning á dansgólfinu með krökkunum.
Opið hús verður í skólanum kl. 12:00-22:00. Nemendur í 8. og 9. bekk veita leiðsögn um skólann á hálfa og heila tímanum.
Danssýning og vígsla nýja skólans verður í Íþróttahúsi kl. 17:00. Við vonumst til að allir nemendur og foreldrar mæti. Hægt er að ganga inn í Íþróttahúsið að vestanverðu og nota bílastæðið þar.
Á föstudegi er kennsla samkvæmt stundaskrá og opnar kennslustofur. Ekki er boðið upp á hefðbundinn morgunverð þennan dag, en það verður snúðadagur þar sem nemendur geta fengið snúð og safa fyrir morgunverðaráskrift eða matarmiða.
Opið hús verður í skólanum kl. 8:00-18:00. Nemendur í 8. og 9. bekk veita leiðsögn um skólann á hálfa og heila tímanum.
Vonumst eftir að sjá ykkur sem flest í skólanum þessa daga.
Allir velkomnir!