Skólasamstarf

Í Árskóla er hefð fyrir samstarfi við aðra skóla og skólastig bæði hérlendis sem erlendis. Áhersla er lögð á þróunarverkefni/samstarfsverkefni sem auðga námsreynslu nemenda. Einnig er lögð áhersla á samstarf starfsfólks um nám og kennslu og annað er viðkemur starfsþróun hvers og eins.

Árskóli tekur reglulega þátt í Evrópuverkefnum sem styrkt eru af Erasmussjóði sem er hluti af Menntaáætlun Evrópusambandsins. 

Samstarf við leikskólann Ársali á Sauðárkróki byggir á gagnkvæmum heimsóknum nemenda. Má þar nefna upplestur nemenda í 7. bekk, sem er hluti af þjálfun þeirra fyrir árlega upplestrarkeppni. Nemendur 6. bekkjar fara á aðventu í árlega heimsókn í leikskólann þar sem Lúsíusöngvar eru sungnir. Nemendur 10. bekkjar kynna árlega uppsetningu á leikverki og fl. Gagnkvæmar heimsóknir skólahóps og nemendahóps á yngsta stigi eru tíðar. Kennaraskipti milli skólastiganna fara einnig fram nokkrum sinnum á ári.

Árskóli tekur þátt í þverfaglegum verkefnum með öðrum grunnskólum í sveitarfélaginu. Má þar nefna Olweusarverkefnið og fl. Einnig er samvinna um endurmenntun starfsfólks. Reglulega eru aðrir grunnskólar hérlendis sem erlendis heimsóttir með það að markmiði að víkka sjóndeildarhring starfsfólks og koma á samstarfi.

Samstarf er við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra um kennslu í nokkrum valgreinum. Einnig er um að ræða fræðslu þegar nemendur flytjast á milli skólastiga. Þeim nemendum sem lokið hafa námsmarkmiðum 10. bekkjar í 9. bekk, þ.e. í íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði gefst kostur á að stunda fjarnám við FNV að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

Árskóli á í samstarfi við Háskólann á Hólum þar sem nemendum 9. bekkjar er boðið upp á valgrein í hestamennsku. Það eru nemar háskólans á hestabraut sem leiðbeina nemendum 9. bekkjar á viku námskeiði um ýmislegt er viðkemur hestamennsku. Kennsla háskólanemanna er jafnframt hluti af námi þeirra þar sem þeim er ætlað að skila ákveðnum hluta náms síns í æfingakennslu.

Árskóli er í góðu samstarfi við Tónlistarskóla Skagafjarðar, en haustið 2016 flutti Tónlistarskólinn inn í húsnæði Árskóla og gefur það aukna möguleika á samstarfi, m.a. varðndi söngstarf. Árlega sér kennari frá Tónlistarskólanum um undirleik fyrir Lúsíuhátíð nemenda í 6. bekk.