See the Good! eða Sjáðu styrkleikann! eins við köllum verkefnið á íslensku er finnskt verkefni.
Hugmyndafræðin á bakvið gildi styrkleikaþjálfunar kemur frá jákvæðri sálfræði.
Jákvæð sálfræði er rannsóknarsvið innan sálfræðinnar og er vísindaleg nálgun á jákvæða mannlega eiginleika. Markmiðið er að rannsaka hvað reynist fólki vel og stuðlar að vellíðan þess. Athygli er beint að því hvað fær einstaklinga, hópa og stofnanir til að blómstra og hvaða breytur byggja undir og viðhalda jákvæðri heilsu og andlegri vellíðan.
Út frá rannsóknarniðurstöðum á sviði jákvæðrar sálfræði hafa verið þróuð svokölluð jákvæð inngrip en það eru markvissar athafnir eða hagnýtar æfingar sem miða að því að rækta með sér jákvæðar tilfinningar, breyta hegðun eða þróa hugræn ferli. Það besta við þessi jákvæðu inngrip er að þau eru flest, ef ekki öll, almenningi aðgengileg og þurfa ekki að kosta neitt.
Að þekkja og nýta styrkleika sína er gott dæmi um það sem rannsóknir innan jákvæðu sálfræðinnar hafa sýnt að stuðli að aukinni andlegri vellíðan.