Skipulögð heilbrigðisfræðsla er veitt í öllum árgöngum og er áherslan á að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar í tölvupósti um fræðsluna. Þá gefst þeim kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig hægt er að nýta það í daglegu lífi.
Skimað er fyrir ákveðnum heilbrigðisvandamálum og eru skimanir framkvæmdar í 1., 4., 7. og 9. bekk. Þær fela í sér mælingu á hæð, þyngd og sjónskerpu. Nemendur í öðrum árgöngum eru skimaðir eftir þörfum.
Þegar skimanir fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk ræðir hjúkrunarfræðingurinn við nemendur um líðan og lífsvenjur. Markmið þessara viðtala er að styrkja vitund nemenda um eigið heilbrigði og líðan. Eins að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur.
Í 7. bekk er bólusett við mislingum, hettusótt og rauðum hundum og stúlkur eru bólusettar gegn HPV (human papilloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini.
Í 9. bekk er bólusett við barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt.
Athugið að það er á ábyrgð foreldra að láta bólusetja börnin sín.
Á heimasíðu heilsuveru má finna nánari upplýsingar um heilsuvernd grunnskólabarna, bólusetningar (ónæmisaðgerðir), skimanir og skipulagða heilbrigðisfræðslu.