Mikilvægt er að nemendur, svo og allir aðrir í skólasamfélaginu, kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Góður skólabragur felur í sér gagnkvæmt traust, virðingu og samábyrgð þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigðar og hollar lífsvenjur eru hafðar að leiðarljósi. Þess vegna er nauðsynlegt að nemandi, í samræmi við aldur og þroska, geri sér grein fyrir að hann beri sína ábyrgð á því hvernig skólabragur verður til og í hverju hann er fólginn.
Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er. Samkvæmt grunnskólalögum skal nemendafélag starfa með fulltrúum árganga og taka fyrir hagsmuna-, félags- og velferðamál nemenda skólans. Í Árskóla starfar nemendafélag og er stjórn þess skipuð nemendum í 7. – 10. bekk.
Við skólabyrjun að hausti kjósa nemendur í 10. bekk sér formenn. Kosnir eru tveir formenn, drengur og stúlka. Formaður er jafnframt fulltrúi 10. bekkjar í skólaráði. Fjáröflunarráð og ritnefnd starfa náið með formönnum bekkjarins. Nemendafulltrúar funda reglulega með deildarstjóra og umsjónarkennurum yfir veturinn um málefni 10. bekkjar. Þessi hópur heldur einnig utan um fjáröflun 10. bekkjar.