Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar til þessa hóps. Einnig nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir.
Móttaka nemenda með sérþarfir eru einstaklingsmiðaðar og er meginreglan sú að nemendur með sérþarfir fylgja sömu móttökuáætlun og aðrir nýir nemendur, að viðbættum eftirfarandi atriðum.
-
Fundur vegna barna með sérþarfir er haldinn að vori áður en formleg skólaganga þeirra hefst í 1. bekk, þegar við á. Fundinn sitja deildarstjóri skólahóps, deildarstjóri yngsta stigs og deildarstjóri stoðþjónustu, eftir eðli máls. Umsjónarkennari situr einnig fundinn ef búið er að taka ákvörðun um hver hann verður.
-
Þegar nýir nemendur í 2. – 10. bekk með sérþarfir innritast í skólann er kallað eftir fyrirliggjandi gögnum um nemendur frá fyrri skólagöngu. Í mörgum tilfellum er stofnað teymi í kringum nemendur sem í sitja t.d. fyrir hönd skólans: umsjónarkennari, deildarstjóri stoðþjónustu, náms- og starfsráðgjafi ásamt foreldrum/forsjáraðilum.