Byrjendalæsi

Kennarar á yngsta stigi Árskóla hófu þátttöku í tveggja ára þróunarstarfi með Skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri við að innleiða vinnubrögð og kennsluhætti Byrjendalæsis haustið 2010 og lauk því formlega vorið 2012. Eftirleiðis hefur leiðtogi innan skólans séð um að halda utan um verkefnið. Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð í læsi ætluð nemendum í 1. og 2. bekk og er mótuð og þróuð undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Í Byrjendalæsi er unnið með lestur, ritun, tal og hlustun á heildstæðan hátt og lögð áhersla á orðaforða og lesskilning. Viðfangsefni eru sótt í merkingarbæran texta og þá gjarnan í barnabækur. Mikið er lagt upp úr samvinnu nemenda og einstaklingsmiðun í kennslu.