Erlend tungumál. Undir erlend tungumál heyra enska og danska og er enska fyrsta erlenda tungumálið sem nemendur læra. Í Árskóla byrjar enskukennsla strax í 1. bekk. Dönskukennsla hefst í 7. bekk.
List- og verkgreinar. Undir listgreinar heyra tónmennt, sjónlistir og sviðslistir. Undir verkgreinar heyra hönnun og smíði, textílmennt og heimilisfræði. Á öllum stigum eru listgreinar kenndar að einhverju leyti samþættar við aðrar námsgreinar. List- og verkgreinar í 9. og 10. bekk eru kenndar sem valgreinar (bundið val í a.m.k. 2 st. á viku). Allir nemendur skólans fá danskennslu, en dans er kenndur í lotum yfir skólaárið.
Náttúrugreinar. Undir þetta svið heyra m.a. náttúrufræði, eðlisvísindi, efnafræði, jarðvísindi, lífvísindi og umhverfismennt. Á yngsta stigi eru náttúru- og samfélagsgreinar mikið kenndar samþættar.
Skólaíþróttir. Undir þetta svið heyra íþróttir og sund.
Upplýsinga- og tæknimennt. Undir þetta heyra m.a. miðlamennt, skólasafnsfræði, tölvunotkun og upplýsinga- og samskiptatækni. Upplýsinga- og tæknimennt fléttast inn í allar námsgreinar. Í kjölfar iPadvæðingar í skólanum síðustu ár er upplýsinga- og tæknimennt sífellt stærri þáttur í kennslu allra námsgreina.
Til ráðstöfunar/val. Skólinn hefur ákveðið tímamagn á viku á hverju stigi til ráðstöfunar að eigin vali og er það tímamagn nýtt á yngsta stigi til enskukennslu frá 1. bekk og viðbótartíma í íslensku, stærðfræði og íþróttum. Í 5. – 7. bekk er tímamagn til ráðstöfunar nýtt til viðbótartíma í íslensku og íþróttum. Á unglingastigi er tímamagn til ráðstöfunar nýtt í valgreinar og umsjónartíma. Þar að auki er forritun kennd í öllum árgöngum á miðstigi og einnig er boðið upp á forritun sem valgrein í 9. – 10. bekk.