Nemendaverndarráð

Samkvæmt 40. gr. grunnskólalaga skal skólastjóri samræma innan hvers skóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, námsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs. Skólastjóri er ábyrgur fyrir starfrækslu ráðsins og stýrir fundum þess. Nemendaverndarráð er skipað skólastjóra, deildarstjóra stoðþjónustu, náms- og starfsráðgjafa, skólasálfræðingi, skólahjúkrunarfræðingi og uppeldis- og sálfræðiráðgjafa sveitarfélagsins. Nemendaverndarráð fundar vikulega en mánaðarlega situr fundina jafnframt fulltrúi fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins. 

Í 17. gr. reglugerðar nr. 584/2010 um nemendaverndarráð í grunnskólum segir um hlutverk þess:

Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs.

Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Starfsfólk skóla, foreldrar, nemendur og fulltrúar sérfræðiþjónustu skólans, sem og fulltrúar ráðsins, geta óskað eftir því við skólastjóra eða fulltrúa hans í nemendaverndarráði að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast málinu ef þörf krefur.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, umbætur eða aðgerðir getur skólastjóri falið aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir ef nauðsyn krefur.