Sköpun í skólastarfi felst í því að móta viðfangsefni sem örva hugmyndaflug einstaklings eða hóps, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi hefur áður gert og miðla til annarra. Sköpunarferlið er ekki síður mikilvægt en afraksturinn. Áhersla er lögð á að nemendur öðlist sem dýpstan skilning á því sem þeir eru að fást við í náminu með skapandi starfi, verklegri færni og nýsköpun. Hvetja skal til gagnrýninnar hugsunar í öllu starfi og öllum námsgreinum sem leiða mun til frumkvæðis, frumleika og sjálfstæðis í vinnubrögðum.
Í Árskóla er rík áhersla lögð á sköpun, frumkvæði og frumleika við margvísleg verkefni. Útfærsla og afrakstur einstakra verkefna byggir oft á sköpun og hugmyndaflugi nemenda. Leiklist, söngur og dans eru stórir þættir í skólastarfinu, en allir nemendur skólans eru markvisst þjálfaðir í að taka þátt í uppsetningu leikverka og koma fram á sviði. Undir merkjum fjölíðar starfa kennarar og nemendur list- og verkgreina í lotum. Hverri lotu lýkur með uppskeruhátíð; sýningu þar sem nemendur kynna verk sín fyrir samnemendum sínum, starfsfólki og foreldrum.