Í Árskóla er áhersla lögð á jákvæð samskipti sem reist eru á grunni gagnkvæmrar virðingar innan liðsheildar þar sem sameiginleg markmið og gildi eru í hávegum höfð. Allir geta lært og tekið framförum, sú vitneskja endurspeglast í viðhorfum starfsfólks og störfum. Leitað er allra leiða til að hver nemandi nái sínum besta árangri og taki stöðugum framförum í námi. Innra starf skólans er metið reglulega og taka starfsfólk, nemendur og foreldrar þátt í því. Í matsferlinu er leitað nýrra leiða, nýrrar þekkingar og áætlanir mótaðar til umbóta í skólastarfinu. Markmiðið er að Árskóli verði skóli sem lærir.
Nemendum er gerð grein fyrir mikilvægi þátttöku þeirra í mótun jákvæðs skólabrags. Hver einstaklingur/nemandi ber ábyrgð í samræmi við aldur og þroska. Með heildstæðri og öflugri lífsleikniáætlun á öllum skólastigum er lögð áhersla á styrkingu jákvæðrar sjálfsmyndar nemenda, eflingu umburðarlyndis og virðingar gagnvart samnemendum, starfsfólki og skólasamfélaginu í heild. Ætlast er til góðrar umgengni af nemendum og þeir sýni kurteisi og góða framkomu. Allir nemendur læra og fá þjálfun í náms- og sjálfsaga. Nemendur hafa einnig greiðan aðgang að einstaklingsráðgjöf og aðstoð hjá náms- og starfsráðgjafa skólans. Mikil áhersla er lögð á að traust ríki milli allra í skólanum, einnig á milli skóla og heimila. Hefðir og siðir í skólastarfinu, þar sem reglubundið skólastarf er brotið upp, eiga stóran þátt í að viðhalda og móta góðan skólabrag.
Stjórnendur og starfsfólk skólans leggja sig fram um að skapa jákvæðan skólabrag í Árskóla með það að markmiði að skilyrði til uppeldis og menntunar nemenda og almennrar velferðar þeirra séu framúrskarandi.