Foreldrar/forsjáraðilar innrita barn sitt í skólann hjá ritara. Sérstakir dagar eru nýttir til innritunar nýnema að vori og eru þeir auglýstir. Helstu upplýsingar um barnið eru þá skráðar.
Gott samstarf er um aðlögun leikskólabarna Ársala sem hefja nám í Árskóla í 1. bekk að hausti. Gagnkvæmar heimsóknir eru milli þeirra og nemenda Árskóla, þó helst nemenda í 1. bekk. Áhersla er lögð á að nemendur í skólahópi fái tækifæri til að sitja almenna kennslustund og íþróttatíma með nemendum í 1. bekk og fari í frímínútur með nemendum á yngsta stigi. Einnig er börnum í skólahópi boðið að taka þátt í ýmsum viðburðadögum skólans, eins og friðargöngu, maraþoni 10. bekkjar og fl. Nemendur í 1. bekk endurgjalda heimsóknir skólahóps og taka þátt í námi og leik í Ársölum.
Skilafundir eru haldnir að vori vegna nemenda með sérþarfir í skólahópi. Þá fundi sitja deildarstjórar skólahóps, foreldrar viðkomandi barns, deildarstjóri yngsta stigs og deildarstjóri stoðþjónustu í Árskóla. Skilafundur er einnig að hausti vegna allra nemenda sem hefja nám í 1. bekk þann veturinn. Fundinn sitja deildarstjórar skólahóps, deildarstjóri yngsta stigs og umsjónarkennarar í 1. bekk.
Tveir fyrstu skóladagar 1. bekkinga eftir skólasetningu fara í viðtöl umsjónarkennara við nemendur og foreldra/forsjáraðila þeirra. Þar gefst tækifæri til að skiptast á nauðsynlegum upplýsingum varðandi nemandann sjálfan og skipulag skólastarfsins og grunnurinn lagður að góðum samskiptum milli heimilis og skóla. Fyrsta formlega skóladag 1. bekkinga er hátíðleg móttökuathöfn sem nemendur og starfsmenn yngsta stigs efna til.
Boðið er upp á sérstakan foreldrafræðslufund fyrir foreldra/forsjáraðila nemenda í 1. bekk í lok september eða byrjun október ár hvert. Fræðslufundurinn er þriggja klukkustunda langur og lögð er áhersla á að foreldri/forsjáraðili frá hverju heimili taki þátt. Fundurinn hefst á kynningum og fyrirlestrum af ýmsu tagi þar sem farið er yfir starfsemi skólans og þá þjónustu sem boðið er upp á. Lögð er áhersla á umfjöllun um mikilvægi góðrar samvinnu og samskipta milli heimilis og skóla. Fundinum lýkur með umræðum foreldra og umsjónarkennara í heimastofum nemenda.