Samkvæmt grunnskólalögum frá 2008 skal grunnskólinn stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda. Starfsfólk skóla, nemendur og foreldrar/forsjáraðilar mynda skólasamfélagið í hverjum skóla. Mikilvægt er að þessir hópar vinni vel saman að mótun þessa samfélags og þeirra umgengnishátta sem eiga að einkenna samskipti innan skólans og utan. Foreldrar/forsjáraðilar allra nemenda gegna mikilvægu hlutverki í námi og þroska barna sinna. Mikilvægt er að þeir taki virkan þátt á fundum og viðburðum sem skólinn boðar til. Á hverju ári er kannað viðhorf foreldra/forsjáraðila nemenda til skólans. Niðurstöður þessarar könnunar eru nýttar til að bæta starf skólans eins og kostur er.
Öflugt samstarf heimilis og skóla og sterk samstaða um grundvallarviðmið er besta veganestið sem við getum gefið börnum og ungmennum og hefur mikið forvarnargildi.