Upplýsingakerfið Mentor er notað við allar almennar skráningar.
Ef um teymisfundi varðandi nemendur er að ræða eru fundargerðir skráðar á sérstökum lokuðum drifum. Skráð er fullt nafn nemanda, dagsetning og ártal, hverjir sátu fundinn og hvað var ákveðið.
Í eineltismálum eru notuð sérstök eyðublöð.
Í Mentor skrá kennarar:
Fundi með foreldrum: Ákvarðanir.
Fundi og viðtöl við nemendur: Ákvarðanir.
Samskipti við foreldra s.s. símtöl og tölvupósta.
Samskipti við nemendur ef ástæða er til.
Ítrekuð atvik sem upp koma hjá nemendum, t.d. vegna hegðunarvanda og brota á skólareglum.
Atriði er varða námslega stöðu t.d. lestrarhraða (fjölda orða á mín.), lestrarlag (stig í matsramma), einkunnir og umsagnir í öllum námsgreinum, undanþágur og annað sem varpar ljósi á stöðu nemandans.
Umsjónarkennari ber ábyrgð á skráningum. Hann skráir alla fundi, upplýsingar um námslega stöðu og atvik auk þess að skrá það sem kemur frá öðru starfsfólki.
Greinakennari ber ábyrgð á að skrá það sem upp kemur í hans tímum. Hann lætur umsjónarkennara vita af skráningunni, ýmist með tölvupósti eða munnlega.
Umsjónarkennari ber alltaf ábyrgð á að skráningar séu birtar foreldrum í Mentor.
Skráðar eru staðreyndir en varast tilfinningaríkar lýsingar og gildishlaðin orð sbr. úrskurð Persónuverndar. Ávallt skal hafa í huga að foreldrar hafa rétt á að sjá allt sem skráð er um barn þeirra og taka skal tillit til laga um Persónuvernd.
Skráningar skulu fara fram jafn óðum svo hægt sé að taka á málum strax ef þess þarf.
Skráningar eru lýsing á ferli máls og mikilvægt að ferlið sé sem skýrast svo vinna með nemandann sé eins markviss og unnt er.
Gæta skal trúnaðar. Með vísan í mál Persónuverndar er mikilvægt að ígrunda vel og vandlega hverju sinni hvort nauðsynlegt er að nafngreina önnur börn en það sem dagbókarfærslan snýr að. Þar kemur fram að: ,,...telji skólinn nauðsynlegt að foreldri fái upplýsingar um önnur börn en þeirra eigin, t.d. ef önnur börn hafa lagt það í einelti eða beitt það ofbeldi, má – að gættu þagnarskylduákvæði laga nr. 72/1996 – beita vægari úrræðum en að skrá það í dagbók, t.d. hafa samband við foreldrið símleiðis.“ Þetta skal ávallt haft í huga við allar skráningar.