Með læsi í víðum skilningi er bæði átt við tæknina sem felst í því að kunna að lesa og skrifa texta, þ. m. t. að nýta sér þá miðla og upplýsingatækni sem völ er á í þjóðfélaginu hverju sinni, sem og hina yfirfærðu merkingu þess að geta lesið í umhverfið og margvíslegar félagslegar aðstæður. Átt er við læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Þannig skal stefnt að því að nemendur öðlist hæfni til að skynja og skilja umhverfi sitt á gagnrýninn hátt og taka þátt í að móta það.
Í Árskóla er unnið samkvæmt lestrarstefnu Skagafjarðar og hafa lestur, hlustun, ritun og tjáning mikið vægi. Nemendur fá þjálfun í öflun upplýsinga, greiningu á þeim, túlkun og miðlun. Nemendur læra hugtök og lögð er áhersla á að notkun þeirra í réttu samhengi og yfirfærslu á ólík fyrirbæri í samfélaginu og umhverfinu. Á yngsta stigi læra nemendur að lesa samkvæmt hugmyndafræði Byrjendalæsis. Nemendur 7. bekkjar taka árlega þátt í Stóru upplestrarkeppninni. Leshópar eru að störfum í árgöngunum þremur á unglingastigi. Þar velja nemendur sér bækur eftir áhuga og hittast vikulega á lesfundum. Hvatt er til frjáls lestrar nemenda á öllum stigum skólans.