Samkvæmt reglugerð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum er það sameiginleg ábyrgð nemenda, starfsfólks og foreldra að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið. Í reglugerðinni kemur fram að í hverjum grunnskóla skuli vera skólareglur sem skylt er að fara eftir. Einnig segir að nemendur eigi að fara eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur.
Í Árskóla er markmiðið að nemendum og starfsfólki líði vel. Til að ná því markmiði er jákvæðum aga beitt. Ekki er stuðst við eina ákveðna uppeldisstefnu heldur leitast við að efla skólabrag sem einkennist af umhyggju og gagnkvæmri virðingu. Skólareglur Árskóla eru birtar í starfsáætlun skólans.
Hér að neðan er dæmi um verklagsferli vegna hegðunar- og samskiptavanda nemanda. Ferlið er sýnt stig af stigi og getur máli lokið á hvaða stigi sem er. Upplýsingar varðandi meðferð mála eru skráðar í dagbók nemanda í Mentor og þjóna þeim tilgangi að hafa á einum stað yfirsýn varðandi brot nemandans og hvernig það er meðhöndlað.
Dæmi um verklagsferli vegna hegðunar- og samskiptavanda nemanda
-
Kennari ræðir við nemanda og hvetur hann til að bæta sig. Samskiptin skulu skráð í Mentor.
-
Starfsfólk kemur upplýsingum til umsjónarkennara ef við á. Umsjónarkennari ræðir formlega við nemandann um málið og hefur samband við og upplýsir foreldra/forsjáraðila um málið. Samskiptin skulu skráð í Mentor.
-
Sé nemanda vísað úr kennslustund fer hann á skrifstofu skólans og bíður við ritaraaðstöðu eftir þeim kennara sem málið varðar. Sama á við ef nemandi sýnir óviðunandi hegðun utan kennslustunda. Samskiptin skulu skráð í Mentor.
-
Umsjónarkennari heldur fund með nemanda og foreldrum/forsjáraðilum í skólanum í samráði við deildarstjóra. Samskiptin skulu skráð í Mentor.
-
Umsjónarkennari vísar málinu til deildarstjóra sem fundar með málsaðilum. Samskiptin skulu skráð í Mentor.
-
Deildarstjóri vísar málinu til skólastjóra sem fundar með foreldrum/forsjáraðilum, nemanda og kennara þar sem hvatt er til umbóta. Fundargerð skráð og fundarmenn samþykkja hana. Ákvarðanir sem teknar eru á fundinum eru skráðar í Mentor.
-
Skólastjóri leggur málið fyrir nemendaverndarráð til kynningar og umfjöllunar ef ástæða er til.
-
Unnið með foreldrum/forsjáraðilum að bættri hegðun nemandans skv. einstaklingsmiðaðri áætlun. Eftirfarandi leiðir eru m.a. farnar í samráði við foreldra/forsjáraðila eftir því sem þörf er á:
-
Foreldrar/forsjáraðilar eru hvattir til að mæta með barni sínu í skólann og fylgja barninu eftir í 1 - 3 daga.
-
Nemandi er aðskilinn frá bekkjarfélögum sínum, tímabundið.
-
Foreldrum/forsjáraðilum boðin aðstoð og ráðgjöf frá skóla; t.d samskiptabók, hegðunarstýrandi samningar o.fl.
-
Fundur með foreldrum/forsjáraðilum þar sem þeir eru hvattir til að sækja aðstoð fyrir barn sitt til sálfræðings eða annarra sérfræðinga.
-
Sérstakar aðgerðir í samráði við skólayfirvöld, s.s. tímabundin brottvísun úr skóla eða samræmdar aðgerðir skv. 14. grein grunnskólalaga nr. 91/2008.
Brot getur verið þess eðlis að þetta ferli eigi ekki við og grípa þurfi til alvarlegra viðurlaga fyrr.