Árskóli er heildstæður grunnskóli fyrir nemendur sem búa á Sauðárkróki, í Hegranesi, á Reykjaströnd og á Skaga. Í Árskóla vinnur sérmenntað starfsfólk saman að því að mæta ólíkum einstaklingum með krefjandi verkefnum við hæfi hvers og eins. Unnið er í anda hugmyndafræðinnar um skóla án aðgreiningar og lögð er áhersla á að koma til móts við námsþarfir allra nemenda í skólahverfinu.
Starfsemi Árskóla fer fram í húsnæði skólans við Skagfirðingabraut, en haustið 2013 var byggt við skólahúsið og öll starfsemi skólans flutti undir eitt þak. Lögð var niður starfsemi í gamla skólahúsinu við Freyjugötu sem áður hýsti 1. – 3. bekk. Í Árskóla starfa um 450 manns, þar af stunda um það bil 380 nemendur nám. Skólinn er deildaskiptur í yngsta stig, miðstig og unglingastig. Hann er einsetinn og hefst skólastarf kl. 8:10 alla virka daga. Skólahúsið er opnað klukkan 7:30 á morgnana. Boðið er upp á morgunmat og hádegismat í matsal skólans og geta allir nemendur og starfsmenn nýtt sér það. Að kennslu lokinni gefst nemendum á yngsta stigi, 1. – 2. bekk kostur á lengdri viðveru í Árvist – tómstundaskóla kl. 13:10 til 16:30 alla daga.