Skólaslit Árskóla

Árskóla var slitið við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 31. maí síðastliðinn. Að þessu sinni útskrifuðust 43 nemendur úr 10. bekk og voru þeir kvaddir með söknuði og góðum óskum. Óskar G. Björnsson skólastjóri flutti hátíðarræðu á skólaslitunum. Hallfríður Sverrisdóttir aðstoðarskólastjóri flutti annál skólaársins og formenn 10. bekkjar, Arnar Freyr Guðmundsson og Hildur Heba Einarsdóttir sögðu frá félagsstarfi 10. bekkjar. Að skilnaði færðu 10. bekkingar skólanum gjafabréf til kaupa á karokímagnara.

Fulltrúar afmælisárganga fluttu erindi og 30 og 35 ára útskriftarnemar færðu skólanum fjárhæð til kaupa á bókaviðurkenningum. Nemendur úr 10. bekk fluttu tónlistaratriði.

Fyrir hönd nemenda skólans afhentu formenn 10. bekkjar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar ávísun að upphæð 240.000,- sem safnaðist á Árskóladeginum 5. maí síðastliðinn.

 

Að skólaslitum loknum var gestum boðið upp á glæsilegar veitingar í málverkasal og starfsmannaaðstöðu í boði 9. bekkinga, foreldra þeirra og skólans.

Starfsmenn Árskóla þakka nemendum og foreldrum gott samstarf á skólaárinu.