Árskóli var settur þriðjudaginn 27. ágúst við frekar óvenjulegar aðstæður, en nýbygging og gagngerar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæði skólans við Skagfirðingabraut til að hýsa þar í fyrsta sinn í vetur alla árganga skólans. Vegna ólokinna byggingaframkvæmda var ekki hægt að hefja skólastarf nemenda strax. Skólastarf unglingadeildarinnar, 8. - 10. bekkjar hófst fimmtudaginn 29. ágúst í nýrri álmu sem staðsett er á þaki Íþróttahússins og hefur hlotið nafnið Þekja. Unglingunum er því kennt úti á Þekju, i jákvæðri merkingu þess orðs. Skólastarf yngsta - og miðstigs hófst föstudaginn 30. ágúst, en skólastofum i A og B álmum var breytt með opnun á milli stofa. Nemendur 1. bekkjar voru í viðtölum með foreldrum sínum fyrstu dagana, þ.a. fyrsti skóladagurinn hjá þeim var þriðjudaginn 3. september. Nemendur á yngsta stigi tóku á móti 1. bekkingum með skemmtilegri móttökuathöfn og foreldrum var boðið í kaffi og kleinur á eftir.
Enn er ýmsum framkvæmdum ólokið innanhúss, m.a. var eldhús skólans ekki tilbúið svo nemendur þurftu að hafa með sér nesti fyrstu dagana. Verið er að standsetja skólasafnið og tölvuverin.
Hér að neðan má sjá nokkra myndir frá skólasetningu og úr skólastarfinu þessa fyrstu daga, sem hefur einkennst töluvert af því að koma sér fyrir í nýju húsnæði.