Nýsköpunarkeppni 5. bekkjar í Skagafirði fór fram í byrjun mars og nú í vikunni voru veitt verðlaun í 7 flokkum til framúrskarandi hugmynda. Nýsköpunardagur 5. bekkjar er liður í því að efla nýsköpun og frumkvöðlahugsun í skólastarfinu m.a. í tengslum við nýja Menntastefnu Skagafjarðar. Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi í upplýsingatækni og nýsköpun, stýrði verkefninu ásamt umsjónarkennurum 5. bekkja grunnskólanna.
Markús Máni Gröndal, nemandi í 8. bekk hannaði og smíðaði verðlaunagripina í Tinker Cad forritinu í iPad og prentaði í nýjum þrívíddarprentara sem skólarnir í Skagafirði fengu nýlega að gjöf frá Kaupfélagi Skagfirðinga ásamt því að skera út í fræsara í FabLab.
Samhliða sérhönnuðum verðlaunagrip og bluetooth hátalara fengu nemendur gjafabréf frá Fab Lab þar sem þeim er boðið sérstaklega í heimsókn í þeim tilgangi að halda áfram hönnun og þróun góðra hugmynda undir leiðsögn starfsmanns Fab Lab.
Til þess að gera keppninni enn hærra undir höfði var ákveðið að skipa dómnefnd sem yfirfór allar þær frábæru hugmyndir sem litu dagsins ljós á Nýsköpunardeginum.
Í dómnefnd sátu þau Kolfinna Kristínardóttir, atvinnuráðgjafi á sviði nýsköpunar hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir framkvæmdastjóri Eims og Sigfús Ólafur Guðmundsson verkefnastjóri atvinnu-, menningar- og kynningarmála hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.
Veitt voru verðlaun fyrir 7 hugmyndir og voru þau veitt út frá eftirfarandi áhersluþáttum:
Besta kynningin: Bakpokinn mikli - Brynhildur Kristín (Grunnskólinn austan Vatna).
Frumlegasta hugmyndin: Cleaning Robot - Snæbjörn Aron (Árskóli).
Besta hugmyndin: Umhverfisvæna Rakettan ‘Klikketta’ - Baltasar Bogi og Hafþór (Árskóli).
Flottasta frumgerðin: Hundakofinn: Bettý Lilja og Gréta Berglind (Grunnskólinn austan Vatna).
Líklegust til að verða til: Reiðhjólaþægindi - Styrmir Snær og Fannar Örn (Árskóli).
Klikkaðasta hugmyndin: Hjálpaleikarinn - Viktor Daði (Varmahlíðarskóli).
Hagnýtasta hugmyndin: Segull í drifskafti - Ísleifur Eldur (Varmahlíðarskóli).
Hér að neðan má sjá myndir af verðlaunaafhendingunni sem fór fram í skólunum.