Árleg nemendakönnun þar sem staða eineltismála er skoðuð var lögð fyrir 5-10. bekk Árskóla í nóvember s.l. Sambærileg könnun hefur verið lögð fyrir nemendur frá árinu 2002. Niðurstöður í ár gefa tilefni til að vera vakandi því eineltismálum hefur fjölgað á milli ára. Í Árskóla mælist nú 4,5% einelti en til samanburðar er landsmeðaltalið 5,3%. Árið 2014 mældist 2,1% einelti í Árskóla en 4,5% árið á undan.
Þegar nemendur eru spurðir hvernig þeim líki í skólanum svara um 86,1% nemenda því til að sér líki vel eða mjög vel í skólanum og allir nemendur skólans segjast eiga einn eða fleiri vini. Það er ánægjulegt að segja frá því að Vinaliðaverkefnið fær góða dóma þar sem 90,8% nemenda segja marga skemmtilega leiki í boði í frímínútum. Eins má sjá að meirihluti nemenda tekur þátt í leikjunum, einungis 15,5% segjast aldrei taka þátt. Um 87% nemenda segist líða vel/mjög vel í frímínútum.
Niðurstöður könnunarinnar hafa verið kynntar fyrir nemendum og starfsfólki skólans og hefur verið unnið með niðurstöðurnar á bekkjarfundum og starfsmannafundum. Áfram er unnið ötullega gegn einelti í Árskóla með ýmsum hætti, s.s. með bekkjarfundum og fræðslu fyrir nemendur og foreldra, fræðslu og umræðufundum fyrir starfsfólk og öflugri eineltisáætlun sem stöðugt er í endurskoðun.
Helstu niðurstöður könnunarinnar má sjá hér.