Námsgögn í Árskóla

Á hverju hausti sprettur upp umræða í þjóðfélaginu um innkaupalista skólanna og fjárútlát heimilanna í tengslum við þá. Skólar finna fyrir pressu um að setja innkaupalista á vefinn sem fyrst og foreldrar fara með listana í verslanir sem keppast um að auglýsa skólavörur. Innkaupum á skólavörum geta fylgt veruleg útgjöld ekki síst fyrir foreldra sem eiga fleiri en eitt barn í skóla.

Eðlilegt er að foreldrar og nemendur fari yfir það sem til er frá fyrra ári og skoði hvort ekki megi nýta eitthvað af því áfram. Hálfkláraðar stílabækur eru fullgildar og einnig blýantar sem ekki eru enn orðnir stubbar. Strokleður og yddarar virka yfirleitt fleiri en eitt skólaár og trélitirnir frá fyrra ári eru oftast í lagi ennþá. Við teljum skynsamlegt að byrja nýtt skólaár á að nota þetta og kaupa svo inn í það sem gengur úr sér eftir því sem líður á veturinn. Foreldrar og nemendur þurfa að passa upp á að endurnýja þessa hluti eftir þörfum allan veturinn.

Árskóli mun í haust ekki leggja fram innkaupalista, en nemendur fá í hendur gátlista yfir það sem eðlilegt er að nemandi sé með í skólatöskunni. Foreldrar og nemendur þurfa að fara reglulega yfir gátlistann yfir veturinn og bæta við því sem vantar hverju sinni.

Í 1. - 3. bekk stendur skólinn fyrir sameiginlegum innkaupum á skólavörum sem nemendur í hverjum námshópi hafa aðgang að allan veturinn. Foreldrar hafa greitt fyrir þetta og hefur kostnaður verið u.þ.b. 2 - 3 þúsund kr.

Með aukinni notkun spjaldtölva á mið- og unglingastigi hlýtur þörf fyrir ýmiskonar stílabækur að minnka.

Tökum höndum saman um að minnka innkaup á skólavörum og gerum þetta af skynsemi.

Stjórnendur og umsjónarkennarar