Þátttakendur í upplestrarkeppninni.
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppni 7. bekkinga í Skagafirði fór fram í sal FNV í dag, þriðjudaginn 12. mars. Sjö nemendur Árskóla tóku þátt, en þeir voru valdir á upplestrarhátíð skólans 29. febrúar sl. Nemendur lásu kafla úr bókinni Hetja eftir Björk Jakobsdóttur, fluttu ljóð eftir Braga Valdimar Skúlason og einnig ljóð að eigin vali. Fjögurra manna dómnefnd valdi þrjá bestu lesarana, en í 1. sæti var Sigmar Þorri Jóhannsson Árskóla, í 2. sæti var Heiðdís Rós Hafrúnardóttir Varmahlíðarskóla og í 3. sæti var Björgvin Skúli Hauksson Árskóla.
Sigurvegararnir fengu sérstök verðlaun, en auk þess fengu allir þátttakendur blóm og bókina Eldur eftir Björk Jakobsdóttur en bókin er framhald bókarinnar Hetja sem lesið var upp úr í keppninni.
Við óskum vinningshöfunum til hamingju með sigurinn og öllum þátttakendum til hamingju með góða frammistöðu.