Kokkakeppni Árskóla

Vinningsliðið
Vinningsliðið

Mánudaginn 1. febrúar sl. fór hin árlega kokkakeppni Árskóla fram í húsnæði skólans.

Fimm  lið tóku þátt, eitt lið úr hverjum valhópi matreiðslu.

Sjá mátti að mikill metnaður var lagður í matargerðina og voru allir réttirnir sérlega vel heppnaðir. Framreiddir voru fínir réttir og m.a.s. réttir sem maður bjóst eiginlega ekki við að fjórtán til fimmtán ára unglingar væru færir um að elda. 

Dómarar voru lengi að störfum, smökkuðu vandlega á réttunum og það var greinilegt að valið var erfitt.

Lið Áróru, Kristínar Lindar og Telmu Aspar hreppti fyrsta sætið en þær elduðu lambafille með gratineruðum sætum kartöflum, borið fram með lauksultu og grænmeti.

Í öðru sæti urðu þau Berglind og Úlfar með villisveppafylltan kjúkling, en því miður var einn liðsmanna,Ingi Sigþór, veikur og gat ekki verið með þeim á keppnisdegi. Í þriðja sæti urðu Óðinn, Arnar og Eysteinn með rjúpur, bornar fram með berjasoðnum perum. 

 Allir réttirnir voru ljúffengir enda var þetta erfitt val fyrir dómarana sem voru þeir Eiður og Jón,matreiðslumeistarar Grettistaks ehf., auk  Ingva Hrannars, kennsluráðgjafa,  og  Stínu, matmóður Árskóla, sem öll gáfu sér tíma til að koma og dæma.

Vinningarnir voru frá: K.S, Ólafshúsi, Wok Cafe , Sauðárkróksbakaríi og Bláfelli. 

Þessi keppni var í alla staði vel heppnuð og það var gaman að sjá allan þann metnað sem keppendur lögðu í matseldina.  Fullyrða má að svona keppni auki áhuga og færni nemenda til framtíðar litið.

Við þökkum dómurum og þeim sem gáfu vinningana innilega fyrir að gera keppni sem þessa mögulega, skólastarfinu til framdráttar.