Malen og Hrafnhildur, sigurvegarar keppninnar
Það var flott kokkakeppni sem fram fór í Árskóla miðvikudaginn 11. febrúar. Sex lið tóku þátt, eitt lið úr hverjum heimilisfræðihópi og auk þess eitt aukalið.
Það var margt um manninn þegar keppnin fór fram og mikil eftirvænting hjá krökkunum. Það mátti sjá, að mikill metnaður var lagður í matargerðina og var maturinn sérlega vel heppnaður. Réttirnir voru frábærir og hver öðrum betri, en keppt var um bragð og útlit.
Dómarar voru lengi að störfum, smökkuðu oft á réttunum og það var greinilegt að valið var erfitt. Eftir erfiða bið voru úrslitin loksins kunngjörð. Lið Hrafnhildar og Malenar varð í fyrsta sæti, en þær elduðu kjúkling með hráskinku.
Í öðru sæti voru þær Unnur Rún, Hugrún Ása og Fríða Freydís með fylltar, sætar kartöflur og í þriðja sæti voru þær Sigrún Þóra og Hildur Heiðdís með kjúklingarétt.
Allir réttirnir voru ljúffengir, enda var þetta erfitt val fyrir dómarana, sem voru þeir Eiður og Jón matreiðslumeistarar frá Grettistaki, Snorri bakari og matreiðslumaður frá Ólafshúsi, Róbert frá Sauðárskróksbakarí og Árni frá Hard Wok Cafe.
Öllum þátttakendum er óskað til hamingju með frábæran árangur og góðan mat og dómararnir fá bestu þakkir fyrir að gefa sér tíma til að koma og dæma. Þeir sem gáfu vinningana fá einnig bestu þakkir, en vinningarnir voru frá Grettistaki, Ólafshúsi, Wok Café og Bláfelli.
Keppnin var í alla staði skemmtileg og gaman var að sjá allan þennan metnað sem lagður var í eldamennskuna og útlit réttanna.
Myndir frá keppninni