Mynd frá Feyki.is
Í gær var farið í hina árlegu Friðargöngu Árskóla. Að vanda söfnuðust allir nemendur skólans ásamt starfsfólki saman fyrir utan skólann og vinabekkir héldu af stað, fylktu liði, hönd í hönd í gegnum bæinn. Var gengið Skagfirðingabrautina að kirkjunni þar sem 10. bekkur tók forystuna og gekk sem leið lá upp að krossinum þar sem lugtin var látin ganga manna á milli með hinni klassísku kveðju nemenda á milli, friður sé með yður. Síðan voru ljósin kveikt á krossinum og gengið til baka í Árskóla þar sem boðið var upp á kakó og meðlæti. Veðrið var gott, kalt og stillt og skemmtu aldnir sem ungir sér vel eins og von er og vísa.
Umfjöllun og myndir af Feyki.is