Foreldrakönnun 2013

Árleg foreldrakönnun var lögð fyrir foreldra/forsjáraðila nemenda í 2., 4., 7. og 10. bekk á foreldradegi í nóvember sl. Alls tóku 83% foreldra þátt og gefa niðurstöður almennt til kynna að foreldrar eru jákvæðir um skólastarf í Árskóla. Í könnun sem þessari gefst foreldrum/forsjáraðilum tækifæri til að leggja mat á og tjá sig um skólastarfið, um það sem vel er gert og það sem betur má fara. Það er mikilvægt fyrir skólastarfið að fá fram viðhorf foreldra með þessum hætti og eru niðurstöður nýttar í þeim tilgangi að bæta skólastarfið en slík umbótavinna fer ávallt fram í gegnum sjálfsmatsaðferðir skólans.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar segja um 95% foreldra Árskóla vera mjög góðan eða góðan skóla og er það sama svörun og frá fyrra skólaári.  Um 83% foreldra segja miklar framfarir eða talsverðar framfarar hafa verið í skólastarfinu í heild undanfarin ár og mælist þetta um 4% hærra en í síðustu könnun. Þess má geta að fyrir tveimur árum var sambærileg svörun 67%, það er því ánægjulegt að sjá að foreldrar eru sýnilega að meta og vitna um framfarir í skólastarfi Árskóla. Um 87% þeirra segja skólastarfið svara þeim kröfum fremur vel eða mjög vel,  sem eðlilegt sé að gera til skóla í nútímasamfélagi, svipaðar niðurstöður og frá fyrra ári. Einnig segja um 91% foreldra að barninu þeirra líði alltaf vel eða oftast vel í skólanum. Þegar foreldrar voru spurðir að því hvort þeir gætu mælt með Árskóla við aðra svöruðu 91% þeirra mjög sterklega eða já, frekar, og er það örlítil hækkun frá fyrra ári. Um 77% foreldra telja náms- og kennsluaðferðir í Árskóla vera mjög fjölbreyttar eða frekar fjölbreyttar og 90% foreldra telja að námsþörfum barnsins þeirra sé sinnt vel eða mjög vel. Allir foreldrar sem þátt tóku í könnuninni telja að barnið þeirra fái að njóta sín í skólanum alltaf eða yfirleitt. Mikil jákvæðni er í garð núverandi umsjónarkennara barnanna en 97% foreldra segja að viðhorf til umsjónarkennara sé ýmist mjög jákvætt eða fremur jákvætt.

Það kemur ekki á óvart að ánægja foreldra með húsnæði skólans og skólalóð skuli taka mestum breytingum milli ára í könnuninni þar sem allur skólinn hóf störf undir sama þaki í fyrsta sinn í upphafi skólaárs. Um 93% foreldra segja húsnæði skólans nú ýmist í heild mjög gott eða í góðu lagi, til samanburðar svöruðu 31% foreldra á sama veg í fyrra. Skólalóðina segja 78% foreldra nú vera í heild mjög góða eða í góðu lagi miðað við 12%  foreldra í fyrra.

Í könnuninni voru nokkrar spurningar sem beint var til  foreldra þeirra barna í 2. bekk sem dvelja í Árvist þegar skóladegi lýkur. Fram kom ánægja með starfsemina þar og jákvætt viðhorf til starfsmanna.

Foreldrum eru færðar bestu þakkir fyrir þátttöku og góða svörun í könnuninni. Heildarniðurstöður foreldrakönnunarinnar má skoða hér.