Eimskip hefur ákveðið að styrkja útbreiðslu Vinaliðaverkefnisins. Ólafur William Hand, markaðsstjóri Eimskips, handsalaði samninginn við þá Guðjón Örn Jóhannsson og Gest Sigurjónsson, verkefnastjóra Vinaliðaverkefnisins, í vikunni.
Vinaliðaverkefnið er bæði í senn forvarnarverkefni gegn einelti og einnig stuðlar það að aukinni hreyfingu nemenda í frímínútum. Verkefnið er norskt að uppruna og þar taka nú um 1.200 skólar þátt. Árskóli á Sauðárkróki gerði á dögunum samning við norska eigendur verkefnisins um útbreiðslu á Íslandi.
„ Þessi styrkur er ómetanlegur fyrir forvarnaverkefni eins og þetta, enda eru forvarnaverkefni ekki rekin með hagnaðarsjónarmiðum. Það kostar mikið að ferðast um landið, kynna verkefnið og innleiða það hjá skólum. Þegar skólar verða þátttakendur eru þeir þjónustaðir vel með mörgum heimsóknum þar sem við Gestur þjálfum upp starfsfólk og nemendur til að takast á við verkefnið,“ segir Guðjón Örn Jóhannsson.
Þá segir Guðjón Örn ennfremur: „Verkefnið er nú unnið í 20 skólum hér á landi með mjög góðri reynslu. Þeir skólar sem taka verkefnið inn og sinna því af metnaði finna strax aukna virkni nemenda í jákvæðum leikjum í frímínútum, minni togstreitu milli nemenda og bættan skólaanda. Það hlýtur að vera eftirsóknarvert að ná þessu fram í starfi allra skóla og jafnframt að minnka verulega líkur á því að einelti nái að grassera á skólalóðinni í frímínútum.“
Guðjón segir að styrkurinn komi sér afar vel fyrir verkefnið en honum verði ráðstafað beint til 5 næstu skóla sem skrá sig í verkefnið sem afsláttur af fyrsta árgjaldi.
Guðjón þakkar að lokum Eimskip fyrir þetta frábæra frumkvæði og bætir við að í hans huga er þetta algjörlega til fyrirmyndar hjá svona stórfyrirtæki.