Árlegur baráttudagur gegn einelti er á morgun 8. nóvember og af því tilefni verða eineltismál í brennidepli í Árskóla í dag, föstudaginn 7. nóvember. Vinabekkjasamvera verður í öllum árgöngum skólans og verður m.a. spilað svokallað Klípusöguspil en það er spil þar sem nemendur vinna saman að lausn ýmissa vandamála sem upp kunna að koma í samskiptum. Vinabekkjafyrirkomulagið er með þeim hætti að nemendur í 1 og 6. bekk, 2. og 7. bekk, 3.og 8. bekk, 4. og 9. bekk og loks 5. og 10. bekk hittast og eiga góða stund saman þar sem áhersla er lögð á að yngri og eldri nemendur kynnist og efli samkennd og vináttutengsl sín á milli.
Í Árskóla er unnið samkvæmt eineltisáætlun Olweusar en það þýðir að allir árgangar skólans búa sér til bekkjarreglur um einelti, haldnir eru reglulegir bekkjarfundir þar sem ýmis samskiptamál eru rædd, eineltiskönnun og tengslakannanir eru reglulega lagðar fyrir nemendur og áhersla er á fræðslu til bæði nemenda og starfsfólks.
Það er von okkar að þessi vinna geri okkur öll meðvituð um mikilvægi góðra samskipta og að allir leggist á eitt, skóli, heimili og samfélag að sporna gegn einelti.