Á morgun, þriðjudaginn 13. október, mun skólastarf í Árskóla taka nokkrum breytingum sem miða að því að efla sóttvarnir í skólanum. Þrátt fyrir fá smit á okkar svæði er aldrei of varlega farið og miða þessar breytingar að því að verja nemendur og starfsfólk og fækka smitleiðum. Áhersla er lögð á að skólastarf nemenda taki eins litlum breytingum og hægt er miðað við aðstæður. Sóttvarnir og þrif í skólanum munum við efla í leiðinni og hefur hlutverk þeirra sem sinna þrifum í skólanum aldrei verið eins mikilvægt og nú.
Við tókum saman upplýsingar fyrir foreldra og nemendur um það helsta sem gert er í Árskóla til að efla sóttvarnir og koma í veg fyrir að skólinn fari allur í sóttkví komi til smits.
-
Við förum eftir tilmælum almannavarna.
-
Aðgengi að spritti er mjög gott í skólanum. Það er spritt í öllum kennslurýmum, á salernum, við matsal, á skólasafni, starfsmannaaðstöðu, við skil milli álma og á fleiri stöðum.
-
Starfsfólki er skipt upp í þrjú hólf, eftir stigum, og reynt að halda hefðbundnu skólastarfi.
-
Starfsfólk á að fara eins lítið og mögulegt er á milli hólfa.
-
Á milli fullorðinna einstaklinga innan skólans gildir 1 m reglan.
-
Samskipti nemenda á milli stiga eru takmörkuð.
-
Þrískipting er í matsal eftir stigum, bæði í morgunmat og hádegismat. Allir sem kom í matsalinn þurfa að spritta sig áður.
-
Gestakomur í skólann eru takmarkaðar. Það á enginn að koma inn í skólann nema eiga brýnt erindi eða vera boðaður á fund. Viðkomandi skal koma inn um starfsmannaaðgang og gefa sig fram við ritara.
-
Æskilegt er að utanaðkomandi sem koma inn í skólann séu með grímu.
-
Ef nemandi gleymir einhverju heima sem hann þarf á að halda og þarf að koma því til hans, skal hringja í skólann og starfsmaður skólans tekur á móti því.
-
Matur er skammtaður fyrir nemendur og starfsfólk í matsal.
-
Starfsfólk mötuneytis notar grímur við störf sín.
-
Nemendur og starfsmenn eiga að vera heima ef þeir finna fyrir einkennum sem gætu bent til Covid-19.
-
Árvist starfar með eðlilegum hætti.
Ef upp kemur smit í skólanum fer smitrakning í gang. Þá gæti farið svo að skólinn, allur eða að hluta, fari í úrvinnslusóttkví sem getur staðið yfir í allt að tvo til fjóra daga. Á þeim tíma er verið að rekja smit og hafa samband við þá sem þurfa að fara í sóttkví. Að lokinni úrvinnslusóttkví kemur í ljós hverjir þurfa að fara í sóttkví. Með því að aðskilja stigin erum við að reyna að minnka líkurnar á að allur skólinn fari í sóttkví.
Ef smit kemur upp, munum við sjá til þess að að foreldrar séu vel upplýstir með tölvupósti og eftir öðrum leiðum ef þarf. Það er afar mikilvægt að foreldrar, nemendur og starfsfólk upplifi öryggi og viti að í Árskóla er gætt vel að sóttvörnum.
Förum varlega.
Við erum öll almannavarnir og gerum þetta saman.