Afhending söfnunarfjár

Á Árskóladaginn, laugardaginn 24. október sl., stóðu nemendur og starfsfólk Árskóla fyrir opnu húsi í skólanum þar sem sýndur var afrakstur undangenginna þemadaga. Nemendur seldu einnig ýmsar vörur sem þeir höfðu útbúið og seldu kaffi og meðlæti í kaffihúsi sem tileinkað var ævintýrapersónum úr leikritum sem skólinn hefur sett á svið. Dagurinn heppnaðist afar vel og fjöldi manns kom í skólann þennan dag.

Afhending á söfnunarfénu fór fram í dag, í Íþróttahúsinu, að viðstöddum öllum nemendum og starfsfólki. Nemendur sungu tvö lög og formenn 10. bekkjar, Alexandra Ósk Guðjónsdóttir og Róbert Smári Gunnarsson fluttu ræðu og afhentu fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki söfnunarféð. Í máli þeirra kom fram að nemendur fyndu fyrir miklum velvilja í samfélaginu þegar þeir væru að ganga í hús eða fyrirtæki að safna fyrir einhverju og með þessari söfnun vildu nemendur skila örlitlu til baka til samfélagsins. Þau Örn Ragnarsson, Herdís Klausen og Þorsteinn Þorsteinsson mættu fyrir hönd Heilbrigðisstofnunarinnar og tóku við ávísuninni, sem var að upphæð kr. 435.003,-.

Örn flutti ræðu og þakkaði höfðinglega gjöf. Í máli Arnar kom fram að féð yrði notað til kaupa á nýju sónartæki fyrir stofnunina.